Gautavík er bær við norðanverðan Berufjörð. Hann stendur þar við samnefnda vík, þar sem var lengi og kaupstaður. Rústir hans sjást enn þá. Þær eru friðaðar og hafa verið rannsakaðar lítillega.
Þangbrandur prestur kom þar fyrst að landi, þegar hann kom hingað í erindum Noregskonungs til að kristna Íslendinga. Hann var þýzkur og gerðist hirðprestur Ólafs konungs Tryggvasonar. Honum er lýst sem ofstopamanni í Kristnisögu og ófærum til kristniboðs, enda var hann sagður bera biblíuna í annarri hendi og sverð í hinni.
Annálar 14. og 15. alda geta Gautavíkurhafnar sem aðalhafnar Austurlands. Þjóðverjar ráku verzlun á staðnum en færðu sig yfir fjörðinn á síðari hluta 16. aldar, fyrst í Fúluvík og síðan í Djúpavog. Bærinn í Gautavík varð fyrir skriðu sumarið 1792 og hjónin á bænum fórust.