Víðast er hálendi landsins gróðurvana nema þar sem vatn kemur til yfirborðsins. Víða á vötnum hálendisins má finna fugla eins og himbrima, lóm, álft, gargönd, duggönd og hávellu. Þar eru líka víða lóa, sendlingur, steindepill og snjótittlingur.
Víða í gljúfrum og á votlendissvæðum eða svokölluðum verum hálendisins er mikið af heiðagæs og talið er að snæugla eigi varpstöðvar við Laufrönd í vestanverðu Ódáðahrauni. Nokkrar litlar varpstöðvar heiðagæsa eru við Herðubreiðarlindir, við Gæsavötn, á Vestur- og Brúaröræfum og í árgljúfri Jökulsár á fjöllum.