Eyvindarkofaver er grösugt mýrlendi austan Þjórsár, umkringt melöldum og þakið fjölda tjarna. Helzti gróður er stör, brok, burnirót, smjörgras, loð- og gulvíðir. Þar eru líka álftir, gæsir, endur og vaðfuglar. Útsýni til fjalla umhverfis er mikið, einkum til Hofsjökuls og Arnarfellssvæðisins. Eyvindarkvísl fellur um verið, að mestu í tveimur kvíslum, sem eiga upptök sín austur á öræfunum, þar til þær sameinast ofarlega í því.
Hin forna Sprengisandleið lá um verið. Norðarlega í því, rétt við leiðina fornu, er kofarúst Fjalla-Eyvindar á lindarbakka og berangri, þar sem er allvotlent. Lindavatn rennur undan rústunum á þrjá vegu og fannst talsvert af hrossa-, kinda og fuglabeinum í einni þeirra.
Daniel Bruun rannsakaði rústirnar 1897 og árið 1953 gerði Gísli Gestsson hið sama. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að kofarnir hefðu verið fjórir eða fimm, séu göng talin með. Svo virðist, að byggt hafi verið yfir lind rétt við tóttirnar. Enn þá sést vel fyrir rústunum. Til skamms tíma komust jeppar gömlu leiðina og slóð liggur af Ölduleiðinni vestan Hágangna niður í Eyvindarver.