Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Dyrfjöll

Dyrfjöll eru hæstu fjöll við Borgarfjörð og hæsti tindur þeirra er 1136 m. Fjöllin bera nafn af klettaskarði  er í fjallgarðinum og kallast það Dyr. Dyrnar eru í 856 m hæð og erfitt að fara þar um nema fyrir vana fjallgöngumenn. Fáir hafa klifið Innra-Dyrfjall en árið 1956 klifu Vilhjálmur Einarsson, Jóhann Ólason og Steinþór Eiríksson innri „dyrastafinn“ og Dyrfjall. Frá því er sagt í ævisögu Steinþórs.

Fáir hafa komið á hæsta tind Dyrfjalla en leiðin þangað getur verið erfið, einkum síðla sumars en komast þarf af jökli yfir á klettabelti en síðla sumars myndast sprungur í jökulinn og á milli jökuls og kletta. Nokkuð greið leið er upp á „Ytra-Dyrfjall“. Þar uppi er varða og í henni flaska með miðum þeirra sem klifið hafa fjallið. Rétt er að hafa með sér blað og skriffæri ef gengið er þar upp. Leiðin upp er nokkuð auðrötuð en rétt er að fá upplýsingar hjá staðkunnugum.

Dyrfjöll eru oft kölluð „Útverðir Austurlands í norðri“. Þau eru mjög formfögur og margir þykjast sjá svipi ýmissa vætta í þeim. Jóhannes Sveinsson, Kjarval, var uppalinn á Borgarfirði og víða í verkum hans bregður Dyrfjöllum fyrir, bæði í myndum sem þau skapa bakgrunn og eins sem fantasíur og riss í aukahlutverki. Finna má í þjóðsögum sagnir um tignar verur hér og m.a. á álfakóngurinn að búa þar. Hjá mörgum yngri Borgfirðingum er Dyrfjall og nágrenni heimkynni Grýlu og jólasveinanna.

Dyrfjöll eiga sér sérstaka jarðfræðisögu. Neðri hluti þeirra mynda háa hamra úr móbergi sem þýðir að þau hafa myndast í vatni. Efstu hraunlögin eru svo basalt. Beggja vegna Dyra eru einskonar framhlaup en reikna má með að þegar ís lá yfir öllu hér þá hafi hann brotið utan úr móbergsstálinu og ísinn svo flutt þetta klettahröngl fram eftir dölunum. Bæði Stórurð, (Hrafnabjargarurð), Urðardalur og Dyrfjalladalur bera vott um þennan framburð. Einnig eru Hvolsraun (Lobbuhraun) í Borgarfirði samskonar framburður.

Mynd: Stórurð og Dyrfjöll.

Myndasafn

Í grennd

Borgarfjörður eystra
Borgarfjörður eystra er nyrstur fjarða, sem ganga inn í Austfjarðahálendið. Borgarfjörður liggur á mótum blágrýtissvæðis og líparítsvæðis og má þar fi…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )