Dynjandisfoss er mestur fossa á Vestfjörðum. Hann er í Dynjandisá, sem fellur í Dynjandisvog. Hún á upptök sín í nokkrum vötnum á Dynjandisheiði, aðallega í Eyjavatni (350m).
Dynjandi fellur niður u.þ.b. 100 m hátt og bungumyndað berg. Hann er u.þ.b. 30 m breiður efst og 60 m neðst. Hann var aldrei nefndur annað en Dynjandi fyrr en einstaka menn fóru að kalla hann Fjallfoss á fyrri hluta 19. aldar.
Nöfnin Dynjandisfoss, Dynjandisá, Dynjandisvogur og Dynjandisheiði eru forn með þessari eignarfallsmynd. Bærinn Dynjandi stóð í nánd við ós Dynjandisár. Neðar í ánni eru Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóar- eða Bæjarfoss. Neðan við fossana eru rústir bæjarins Dynjandi, bílastæði, tjaldstæði og salerni.