Cancún liggur fyrir norðurströnd Yukatanskagans. Flatarmál er 10 km² og íbúafjöldi í kringum 60.000.
Skemmtiferðaskip eru tíðir gestir. Flest þeirra koma frá Miami eða San Juan (Puerto Rico).
Flugsamgöngur byggjast mest á leiguflugi, sem tengir eyjuna beint við Frankfurt am Main, München, Düsseldorf og Zurich eða Mexíkóborg, Mérida, Monterrey og ýmsa bandaríska flugvelli.
Eyjan opnaðist ferðamönnum í kringum 1970 og síðan þá hefur hún verið tengd landi með brúargerð og uppfyllingum á eiðinu milli lands og eyjar.
Upprunalega bjuggu mayar á eyjunni, sem Stephens og Catherwood nefndu fyrst Can-cune (mayamál = kerið við enda regnbogans) árið 1843. Árið 1970 var farið að vinna að uppbyggingu eyjunnar en þar bjuggu varla fleiri en 100 manns af mayaættum og lifðu af fiskfangi og Chiclesöfnun (Chicle er hvítur gúmmívökvi úr sapodillaplöntunni (Achras sapola), sem einkum er notaður í tyggigúmmí).
Mexíkóska ríkisstjórnin og mörg einkafyrirtæki kusu eyjuna sem hentugan áfangastað ferðamanna. Þegar árið 1986 var hún orðin mikilvægasti ferðamannastaður Mexíkó með 8000 gistirýmum. Árið 1988 kom bakslag í seglin, þegar fellibylurinn Gilbert skildi eftir sig slóð eyðileggingar á Cancún og Yukatan-skaganum. Ímynd draumaparadísar ferðamanna hefur líka raskast svolítið vegna plöntusjúkdóms, sem hefur lagzt á pálmatrén á eyjunni undanfarin ár.
Fellibylurinn Vilma lék Cancún og Conzumel grátt 22. október 2005 og hélt síðan áfram yfir Kúbu og suðurhluta Flórída dagana á eftir.