Búrhvalur (SPERM WHALE) (Physeter catodon)
Fullvaxin karldýr eru 17-20 m löng og 40-52 tonn að þyngd. Kvendýr eru 8-17 m löng og 20-38 tonn. Lífslíkur eru 60-80 ár. Skrokkurinn er dökkgrár að ofan, hliðarnar ljósari og neðri hlutinn silfurgrár. Augun og bægslin eru frekar smá og tæpast örlar fyrir bakugga. Flestar hinna 30 tanna (20 sm) eru í mjóum neðri skoltinum. Heilinn er hinn stærsti í núlifandi dýrategundum og vegur 10 kg.
Talið er að búrhvalurinn geti kafað niður á 3200 m dýpi. Hann er venjulega 15 mínútur í kafi í hvert sinn en er talinn geta verið rúmar tvær klst. í kafi, ef þörf er á. Hausinn er rúmlega þriðjungur af lengd dýrsins og þar er mikið magn af mjög feitu lýsi, sem kann að gera því kleift að kafa svo djúpt. Líklega dreifist lýsið um skrokkinn eftir stöðu þess og dýpi, jafnar þrýsting og geymir súrefni.
Aðalfæða búrhvalsins, kolkrabbi, lifir á talsverðu dýpi. Hvalurinn étur líka smokkfisk og ýmsar fisktegundir, s.s. túnfisk, risaskötu og hákarl. Hér við land gæðir hann sér á karfa, hrognkelsum, skötusel, þorski, ufsa og hlýra. Algengt er að búrhvalir beri merki á hausnum um átök við kolkrabba.
Búrhvalstarfar eru ólíkir öðrum hvölum í ástarlífi sínu, því þeir safna um sig 20-30 kúm og gætir hjarðarinnar vel. Mökun fer aðallega fram í apríl, þegar dýrin eru á norðurleið. Meðgangan tekur u.þ.b. 16 mánuði. Kálfurinn vegur eitt tonn og er 3½-4½ m á lengd við fæðingu. Hann er á spena í u.þ.b. eitt ár. Álitið er, að kvendýrið ali kálfa þriðja hvert ár. Kynþroski kvendýra verður við 7-13 ára aldur en karldýrin miklu sienna, við 17-21 árs aldur. Þessi tegund lifir í öllum heimshöfum, en þó aðallega í hlýjum sjó. Hér við land eru aðeins gamlir eða ungir tarfar á sumrin. Þeir ferðast í hópum, 10-20 saman.
Talið er, að u.þ.b. 1.400 dýr komi að Íslandsströndum ár hvert og stofnstærðin í heiminum sé 1½ – 2 milljónir.