Brúnavík er fyrsta víkin sunnan Borgarfjarðar eystri. Hún er nokkuð breið og snýr móti norðaustri. Upp af henni er allbrattur dalur með grónum melhryggjum og mýrlendi.
Þarna var löngum tvíbýli, þar til víkin fór í eyði árið 1944. Búsetuskilyrði þóttu góð þarna fyrrum, góð tún og engjar, nokkur fjörubeit og snjólétt að jafnaði.
Lendingin í víkinni var allgóð. Þar er nú neyðarskýli SVFÍ. Klettarnir í botni víkurinnar eru ríólítmyndanir, sem sandfjaran ber keim af, og margir hafa gaman af því að rölta um hana.