Brautarholtskirkja á Kjalarnesi er í Reynivallaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.
Hún má teljast fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar. Kirkjur hafa verið í Brautarholti frá fornu fari. Kirkjan, sem þar er nú, var reist árið af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi 1857 og er henni lýst í fyrstu prófastsvísitasíu árið eftir sem vönduðu og snotru húsi. Litlar breytingar hafa orðið á henni síðan. Áratug eftir vígslu kirkjunnar kom þjóðskáldið síra Matthías Jochumsson til þjónustu í kirkjunni (1867-73).
Kirkjan er að innanmáli 18,15 m 5,65 m á breidd; á hvorri hlið er tveir jafnstórir gluggar, upphaflega með sex rúðum hvor en auk þes lítill tveggjarúðu gluggi yfir prédikunarstóli og var hann frá upphafi. Þessi kirkja var einnig upphaflega byggð með turni. Yfir kirkjudyrum er fjögurra rúðu gluggi. Á sönglofti voru upphaflega tveir langbekkir en langt er síðan loftinu var lokað og orgelið flutt niður. Prédikunarstóllinn er frá 17. öld. Rúðuþil var og er í kór. Kórgrindur milli sönghúss og framkirkju hafa hins vegar verið teknar niður fyrir löngu. Enn sem fyrr eru tvær klukkur í turni, hin stærri frá 1740. Skírnarsár er sérkennilegur, ítalskur að gerð, úr marmara, tvíhólfa. Þegar kirkjan var byggð var hins vegar í henni skírnarfat úr tini og komið til ára sinna. Ekki er vitað, hver örlög þess urðu. Altaristaflan sýnir Jesúm á bæn í Getsemane, kom í kirkjuna árið 1868.
Klukkur eru tvær í turni. Önnur frá 1740, hæð 23 cm en þvermál 34. Hin er án áletrunar og mun minni: hæð 17 cm en þvermál 22,5.
Árið 1958 fór fram gagnger viðgerð á kirkjunni, en 1967 var gerð breyting á henni að innan með því að innstu bekkir báðum megin voru teknir brott og gangur milli bekkja breikkaður. Haustið 1987 hófust gagngerar viðgerðir á kirkjunni, var þá m.a. grafið undan henni og steyptar nýjar undirstöður svo og sökklar. Þá var kirkjan klædd að nýju yst sem innst. Gunnar Bjarnason húsasmíðameistari sá um smíðina en Hörður Ágústsson hafði umsjón með verkinu.