Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Björn Pálsson Flugmaður

ALDARMINNING.
Grein í Morgunblaðinu 10. janúar 2008
eftir Skúla Jón Sigurðarson

Hinn 10. janúar 2008 voru 100 ár liðin frá fæðingu Björns Pálssonar flugmanns, sem var frumkvöðull í   sjúkraflugi á Íslandi og þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Þessi fátæki sveitapiltur fékk óviðráðanlegan flugáhuga og nánast köllun til að starfa við flug, hóf flugstarfsferil sinn af eigin rammleik þá orðinn fertugur að aldri og náði á 25 ára starfsferli sínum að skrá merkan kafla í flugsögu Íslendinga. Saga Björns Pálssonar flugmanns er án efa ein merkasta saga íslensks flugmanns, líf hans og flugmannsstarf var helgað því að koma fólki til hjálpar í neyð og að hjálpa veikum og slösuðum og æði oft var aðkoma Björns eini möguleikinn til bjargar. Það er því við hæfi núna á þessum tímamótum, að rifja upp nokkra þætti sem varða þennan merkilega, hógværa og eftirminnilega mann.

Björn var sonur hjónanna Páls Jónssonar frá Vindfelli í Vopnafirði og Sólrúnar Guðmundsdóttur frá Hauksstöðum á Jökuldal. Þau hjón bjuggu á Hauksstöðum á Jökuldal, á Sleðbrjót í Jökulsárhlíð og á Arnhólsstöðum í Skriðdal, en lengst af á Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá og þar fæddist Björn hinn 10. janúar 1908. Hann var þriðja barn þeirra hjóna, sem eignuðust alls sex börn er öll komust til fullorðinsára. Að loknu barnaskólanámi, var Björn tvo vetur í Alþýðuskólanum á Eiðum og síðan veturinn 1927-1928 í Samvinnuskólanum í Reykjavík.

Sumarið 1936 urðu kaflaskipti í flugsögu Íslendinga, þegar eldhuginn og brautryðjandinn Agnar Kofoed-Hansen fór að láta til sín taka. Agnar skildi að byrja yrði á grunninum og rækta grasrótina, en þá um sumarið stofnaði hann Flugmálafélag Íslands og Svifflugfélag Íslands. Meðal stofnfélaga beggja var Björn Pálsson bifreiðarstjóri hjá Ríkisspítölunum, en hann hafði þá fengið mikinn áhuga á flugi og svifflugið var heillandi. Hinn 31. janúar 1937 var fyrsta svifflugæfingin í Vatnsmýrinni, síðan var æft á ýmsum stöðum um sumarið, svo sem uppi á Kjalarnesi, við Sauðafell og svo á Sandskeiðinu. Björn Pálsson starfaði sem bifreiðarstjóri hjá Ríkisspítölunum í Reykjavík árin 1934 til 1942 og þetta sumar átti hann stóran þátt í að þessar æfingar gátu farið fram, en á sunnudögum var farið á bifreið Ríkisspítalanna til æfinganna. Bifreiðin kom þar heldur betur í góðar þarfir, en Björn hafði fengið leyfi húsbænda sinna til þess að þeir svifflugmennirnir mættu nota hana.

Sumarið 1938 var mikið um að vera í íslensku svifflugi, en þá var þýski svifflugleiðangurinn hér á Sandskeiðinu og Björn lét sig ekki vanta þegar hann átti möguleika á því að fara austur á Sandskeið.

Hann hafði þá þegar tekið A-próf í svifflugi hjá Agnari Kofoed-Hansen, B-prófið tók hann hjá Carl Reichstein, þýskum svifflugkennara sem Agnar hafði ráðið haustið 1937 til þess að kenna hér svifflug og C-prófið tók hann 14. júlí 1938, þegar þýski svifflugleiðangurinn var hér.

Björn hafði árið 1937 keypt hlut í tveggja sæta einkaflugvélinni G-AAOF af gerðinni Blackburn Bluebird,  flaug fyrst hérlendis í júní það ár, en stöfum hennar var breytt í TF-LOA eftir að Björn kom til sögunnar. Í desember 1937 hóf hann að læra vélflug á flugvélina hjá Agnari Kofoed-Hansen ,flugmálaráðunaut ríkisins, og einnig hjá Birni Eiríkssyni, flugmanni. Björn Pálsson hlaut svo fyrstu flugréttindi sem veitt voru hér á landi, þegar hann lauk fyrstur Íslendinga einliðaprófi í flugi hérlendis, hinn 30. ágúst 1938 og fékk “sólóskírteini” númer 1. Hann fékk svo einkaflugmannsréttindi á Íslandi einnig fyrstur manna sömuleiðis hjá Agnari, hinn 19. júní 1939.

Hinn 14. október 1939 kvæntist Björn Sveinu Sveinsdóttur f. 9. maí 1916. Hún var af rangæskum og skaftfellskum ættum og foreldrar hennar bjuggu þá á Heiði við Kleppsveg í Reykjavík.
Nokkru fyrir brúðkaupið, eða í byrjun ágúst, fór Björn með Sveinu sína í hringferð um landið á TF-LOA. Aðaltilgangurinn var að heimsækja fjölskylduna austur í Skriðdal og kynna henni Sveinu.

Þetta flug var mjög merkilegt í flugsögunni og er með fyrstu, ef ekki fyrsta einkaflug sem farið var á Íslandi.

Björn sagði m.a. svo sjálfur frá ferðinni, í viðtali í Vikunni árið 1963:
Suðaustanátt og bólgin regnský lágu yfir Hengli og Bláfjöllum, en þótt himininn væri þungbrýnn eins og oft, taldi ég ferðaveður og eftir hádegið vorum við tilbúin til flugtaks. Flugvélin var opin og sæti voru fyrir tvo, hlið við hlið. Við vorum vel búin til ferðarinnar, í þykkum vattgöllum og með fluggleraugu, sem auðvitað voru ómissandi í hverri flugvél þá. Flugvélin hóf sig af vellinum, ég hækkaði flugið til norðurs og setti stefnuna fyrir norðan Eiríksjökul. Við höfðum engar veðurfregnir haft frá þeim stöðum, sem leið okkar átti að liggja um, en þegar á reyndi var besta flugveður. Eftir rúmlega tveggja tíma flug, komum við til Akureyrar og ég lenti á túninu í Lundi, hjá Jakobi Karlssyni.

Það var orðið nokkuð áliðið dags, þegar við vorum tilbúin til flugtaks á Akureyri. Veðurútlit var sæmilegt eftir því sem ég hélt, en skýjafar nokkurt. Þó held ég nú að verst af öllu hafi verið það, að þekkingin á veðurfari og landslaginu hér hafi verið takmörkuð. Ég hafði farið þessa leið á hestum nokkrum sinnum og treysti mér því til þess að rata og því lögðum við af stað í hálfgerða tvísýnu.

Ef ég ætti að fara þessa leið í dag væri það auðvelt því ótalmargt hefur breyst, en þá þurfti ég víða að krækja til þess að hafa hreint borð við veðurguðina. Litla flugvélin lét vel að stjórn, flughraðinn var ekki nema 100 km á klst. og undir kvöld komum við að Arnhólsstöðum í Skriðdal, sem var áfangastaðurinn.

Ég fór nú að undirbúa lendinguna sem gat orðið erfið. Engar bremsur voru á hjólunum eins og nú tíðkast og mótstaða vinds og brautar skammtaði því brautarlengdina. Lenti ég svo á árbakka og tókst það vel. Það varð upp fótur og fit á bæjunum. Fólkið hafði séð flugvél „hrapa” niður við á og hélt að það hefði orðið slys. Kom undrunarsvipur á menn, þegar þeir báru kennsla á flugliðið.

Þarf ekki að orðlengja það að okkur var tekið opnum örmum og gistum við hjá foreldrum mínum yfir nóttina. Næsta dag var svo flugsýning í Skriðdal. Við fórum í nokkrar flugferðir með fólkið í sveitinni og höfðu menn af hina mestu skemmtan, enda má segja að flug hafi fram að þessu verið óþekkt fyrirbæri í Skriðdal.

Hinn 11. ágúst kvöddum við svo ættingja og vini. Gömul kona bað mér allrar blessunar og tók af mér loforð um að fljúga nú alla tíð bæði hægt og lágt, svo mér mætti auðnast að halda lífi og limum. Það rumdi í mótornum og vélin þaut af stað eftir áreyrunum og í loftið. Fáskrúðsfjörður var næsti áfangastaðurinn, en þar átti konan mín systur búsetta”.

Frá Fáskrúðsfirði flugu þau Björn og Sveina til Hornafjarðar þar sem þau gistu eina nótt. Næsta dag hugðist Björn fljúga alla leið til Reykjavíkur, en honum leist ekki á skýjafar og veður yfir Reykjanesfjallgarðinum, svo þau lentu á Loftsstöðum í Flóa og gistu þar eina nótt, en héldu svo til Reykjavíkur að morgni 7. dags ferðarinnar. Flugtíminn varð samtals 11 klst og 25 mínútur.

Eins og áður sagði, starfaði Björn sem vörubifreiðarstjóri hjá Ríkisspítölunum frá því um 1930, þ a r t i l snemma á stríðsárunum, a ð h a n n eignaðist eigin vörubifreið og stundaði akstur á Vörubifreiðastöðinni Þrótti um árabil og vann meðal annars við gerð Reykjavíkurflugvallar. Ásamt bifreiðaakstrinum vann Björn við húsbyggingar allt til ársins 1951.

Börn þeirra hjóna voru orðin fjögur, fjárráðin af skornum skammti og brauðstritið var krefjandi fyrir heimilisföðurinn, en Birni tókst samt að koma upp húsnæði fyrir fjölskylduna.

En flugið átti hug Björns Pálssonar allan og kallaði á hann.

Árið 1948 sannaði Björn, að allt er fertugum fært, þegar hann réðist í það einn og óstuddur að kaupa litla 2-3 sæta, einshreyfils flugvél TF-KZA, af gerðinni KZ-III. og hugðist stunda atvinnuflug með henni ásamt byggingarvinnunni. Málin þróuðust fljótlega þannig, að brátt var leitað til Björns um sækja sjúklinga út á land og í desember 1949 fór hann fyrsta sjúkraflugið vestur að Reykhólum á Barðaströnd. Þörfin fyrir sjúkraflugið var mikil, hann sá líka möguleikana á að sjá sér og fjölskyldunni farborða og á vettvangi sjúkraflugsins átti Björn Pálsson eftir að vinna stórvirki. Nú varð ekki aftur snúið en þá þegar hafði starf hans vakið athygli alþjóðar.

Hann vann áfram við húsbyggingar ásamt fluginu, allt til ársins 1951, en þá snéri hann sér alfarið því og flugrekstur varð starf hans þaðan í frá til æviloka. Þetta ár keypti Björn með hjálp Slysavarnafélags Íslands, þriggja sæta, eins hreyfils flugvélina TF-LBP af gerðinni Auster-5 og árið 1954 keypti hann ásamt S lysavarnafélagi Íslands, flugvélina TF-HIS, fjögurra sæta, eins hreyfils Cessna 180, sem reyndist alla tíð einstakt happafley og hann notaði til sjúkraflugs allt til æviloka. Þessi flugvél er enn í góðu ástandi, í eigu flugklúbbs atvinnuflugmanna og ber nafnið Björn Pálsson til heiðurs honum. Í heilan áratug flaug Björn eins hreyfils flugvélum sem ekki tóku nema einn sjúkling lækni eða fylgdarmann. Kalla mátti það byltingu þegar tveggja hreyfla flugvélin TF-VOR, af gerðinni Beech Twin-Bonanza kom til skjalanna árið 1960. Björn stofnaði ásamt Flugfélagi Íslands hf. fyrirtækið Flugþjónustuna hf. árið 1965, gerðist framkvæmdastjóri þess og rak það til dauðadags. Hann hafði nokkra flugmenn í vinnu síðasta áratuginn sem hann lifði og fyrirtækið gerði út nokkrar fleiri tveggja hreyfla flugvélar.

Aðstæður til flugs af því tagi sem Björn stundaði, voru svo sem gefur að skilja oftar en ekki afar erfiðar í fjöllóttu og strjálbyggðu landi, við óblítt og síbreytilegt veðurfar. Útköllin og beiðnir um flug komu fyrirvaralítið, jafnt á nóttu sem á degi og í öllum veðrum og oftar en ekki þegar flestar aðrar bjargir voru bannaðar. Á fyrsta áratugnum sem Björn stundaði sjúkraflug út á landsbyggðina, voru leiðsögukerfi og staðsetningartæki ekki jafnöflug og örugg og síðar varð og það var ekki heiglum hent að ráða farsællega fram úr óvæntum og erfiðum vanda sem sífellt steðjaði að.

Björn Pálsson var um langa hríð náinn ráðgjafi Agnars Kofoed-Hansen flugmálastjóra, þegar gerðar voru og merktar flugbrautir fyrir sjúkraflugið vítt um landið á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar. Í sjúkrafluginu lenti Björn þ a r a ð a u k i á fjölmörgum og ótrúlegustu stöðum á landsbyggðinni og á mörgum þeirra hafði flugvél aldrei lent áður og kannske aldrei síðan.

Hinn þjóðkunni maður Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, þekkti land sitt einnig flestum betur og hann lét sig ekki vanta þegar atburðir urðu sem snertu náttúru Íslands. Ótaldar voru þær ferðir sem Björn flaug með Sigurð á vettvang slíkra atburða og báðir mátu þeir hvorn annan mikils. Sigurður Þórarinsson var í fyrirlestrarferð erlendis þegar honum bárust tíðindin af sviplegu láti Björns og hann ritaði þá Sveini syni hans ógleymanlegt bréf. Þar segir m.a.:

. . . . „Hefði ég getað aflýst fyrirlestri mínum sem ég átti að halda næsta dag, hefði ég gert það. Ég var andvaka um nóttina sem ég þó sjaldan verð. Fyrir hugskotssjónum svifu allar þær ferðir sem ég hef átt í lofti með föður þínum um áratugi, fyrstum á vettvang í hverju eldgosinu eftir annað, ótal Surtseyjarferðir, fjölmargar ferðir til Grímsvatna. Saman höfum við upplifað allar náttúruhamfarir sem orðið hafa hér síðustu áratugina…

Ég hefi mörgum manninum kynnst á minni ævi sem þegar er orðin nokkuð löng og viðburðarík, en fáir hafa auðgað mitt líf meir en Björn Pálsson. Þó ég hafi ekki kynnst djarfari flugmanni, er mér þó jafn ofarlega í minni hvað hann var gætinn og að hann tók aldrei áhættu að ástæðulausu, eins og hann var óhikandi að taka hana ef með þurfti. Þekking hans á landinu var með eindæmum og mér stöðugt aðdáunarefni er ég flaug með honum”.

Björn lagði sig frá því fyrsta alveg sérstaklega fram um að þekkja landið og landslagið. Allir sem þekktu Björn, vissu hve hann var gjörkunnugur hvar sem var á landinu og þekkti það vel, byggðir jafnt sem óbyggðir. Athyglisgáfa hans var með ólíkindum og ósjaldan hringdi alls ókunnugt fólk í hann og bað hann til dæmis um að svipast um eftir týndum hestum eða fé, næst þegar hann ætti leið yfir tiltekið svæði. Hann lagði sig eftir að fylgjast með vexti og viðgangi hreindýrastofnsins og stundaði um langt árabil talningu á þeim úr lofti á vegum menntamálaráðuneytisins. Einnig fylgdist hann með beitarþoli á afréttum landsins og hafði oft samband við bændur ef sauðfé var tekið að safnast að girðingum neðan afréttanna og svo mætti lengur telja, því víða var áhuginn. Hann þekkti og skildi flestum betur staðbundið veður- og vindafar tengt fjöllum og landslagi, til dæmis í dölum og fjörðum og hann var meistari í að lesa í skýjafarið yfir fjöllum. Ég leyfi mér að fullyrða, að enginn maður annar á hans tíð hafi verið jafnoki hans í því að staðsetja sig í sjónflugi og rata eftir kennileitum úr lofti séð.

Djúp og einlög vinátta ríkti milli Björns Pálssonar og dr. Friðriks Einarssonar læknis. Þeir fóru oft saman í erfið sjúkraflug og dr. Friðrik rifjaði m.a. upp eitt þeirra í endurminningum sínum „Læknir í þrem löndum”.

Dr. Friðrik segir frá því, að eitt sinn er þeir voru á leið með sjúkling frá Neskaupstað til Reykjavíkur, birtist skyndilega skýjarof og dr. Friðrik sá grilla í lækjarsprænu á jörðu og segir: „Hvar skyldum við vera núna”? Björn svarar um hæl : „Séð hef ég skrautleg suðræn blóm, sólvermd í hlýjum garði, áburð og ljós og aðra virkt, enginn til þeirra sparði. Mér var þó löngum meir i hug, melgrasskúfurinn harði, runninn upp þar sem Kaldakvísl, kemur úr VonarskarðiÝ Vart hafði Björn lokið þessu erindi úr Áföngum prófessors Jóns Helgasonar, þegar rofið var aftur hulið skýjum.

Öllum sem til þekktu og ekki síst Birni Pálssyni sjálfum, var það full ljóst að æði oft tefldi hann á tæpasta vaðið þegar neyðin kallaði og líf manns var í veði. Hann hélt alltaf ró sinni og þar kom ekki aðeins sífellt fram hin meðfædda þörf og sterkur vilji hans að verða öðrum að liði og hjálpa nauðstöddum, heldur einnig mikill andlegur styrkur og áræði, gjörþekking á landinu og aðstæðum, heilbrigð skynsemi og sterk skaphöfn. Allir vissu mætavel, ekki síst hann sjálfur, að oft fór hann við slíkar aðstæður út fyrir takmörk starfrækslu venjulegs farþegaflugs og lagði sig sjálfan sannarlega í lífshættu.

Margar sögur eru til um Björn og sjúkraflug sem hann fór í afar erfiðum skilyrðum og vondu veðri. Flugmaður sagði mér eftirfarandi sögu sem gerðist þegar hann ungur og lítt reyndur var nýbyrjaður að starfa hjá Flugþjónustunni hf. Eitt sinn var leitað til Björns að koma bráðveikum dreng á Vopnafirði undir læknishendur. Allir vegir voru ófærir og veður var mjög slæmt á NA-landi, snjókoma og lélegt skyggni og þetta virtist eina leiðin til þess að bjarga lífi þessa drengs. Björn bjóst til ferðar á TF-VOR og rétt fyrir brottför bað sögumaður minn Björn um að fá að fara með og hann samþykkti það.

Flogið var norður yfir hálendið og austur um Hólsfjöll, en þegar kom að Grímsstöðum á Fjöllum var skyggnið orðið mjög lélegt og sá sögumaður minn engin kennileiti vegna sjókomunnar og lélegs skyggnis og áttað sig aldrei á því hvar þeir voru. Hann tók eftir því að Björn varð mjög hugsi og eins og annars hugar þegar þeir voru að fljúga niður í Vopnafjörðinn við mjög erfið skilyrði og leist unga manninum nú ekki á blikuna, en Birni tókst þó að lenda á flugvellinum.

Þar tók Kjartan Björnsson flugafgreiðslumaður á móti þeim. Björn víkur sér að Kjartani og segir: „Ég var að velta því fyrir mér áðan, hvort bærinn hérna fram frá hafi heitað Hauksstaðir eða Haugsstaðir”! – Þetta var þá það sem hann var að brjóta heilann um á leiðinni niður í Vopnafjarðardalina! Ekki þarf að geta þess að bráðveikum sjúklingnum varð komið undir læknishendur og bjargað.

Björn var lengi vel einyrki í flugstarfseminni og rak hana heiman frá sér. Sveina Sveinsdóttir kona hans annaðist alla afgreiðslu varðandi starfsemina árum saman. Á nóttu sem degi tók hún við skilaboðum og beiðnum um flug og hún fylgdist alltaf með flugferðum Björns, hvar hann var staddur, hvenær hann væri væntanlegur á ákvörðunarstað eða heim aftur. Víst er að henni hefur ekki alltaf verið rótt þegar Björn fór í skyndi í erfið flug, veður válynd og lendingarstaður ekki alltaf hinn tryggasti.

Sjúkraflug hefur aldrei reynst ábatasamt þeim sem það stunda og Björn og Flugþjónustan voru þar ekki undanskilin. Óhætt er að fullyrða að naumur fjárhagur setti rekstrinum og kaupum á nýjum tækjum og búnaði skorður, en hagsýni og óeigingirni og ekki síst áhugasamt, fært og duglegt starfsfólk voru styrkur Flugþjónustu Björns Pálssonar flugmanns.

Það var með ólíkindum hvernig Björn Pálsson flugmaður leysti hvern þann vanda sem hann stóð frammi fyrir og virtist óleysanlegur. Hann sýndi það og sannaði fyrir íbúum afskekktra og einangraðra byggða, að mögulegt var að koma þeim til hjálpar þegar neyðin barði að dyrum og engin önnur ráð en sjúkraflugið voru möguleg eða tiltæk til þess að bjarga mannslífi. Ekki leið á löngu þar til hann hafði aflað sér mikils og góðs orðstírs meðal þjóðarinnar, orðstírs sem „deyr aldregi”. Hann opnaði augu manna fyrir því, að mögulegt var að koma bráðveiku fólki fljótt undir læknishendur, þótt vegir væru engir eða lokaðir og flugbrautir væru engar nálægar. Áhugi hans var brennandi og hann var ósérhlífinn með afbrigðum.

Björn varð þjóðkunnur fyrir störf sín við sjúkraflugið, hann gerði nafn sitt ódauðlegt í flugsögu okkar og í huga þjóðarinnar var hann hetjan, bjargvættur og lífgjafi sem ótal sinnum bauð sjálfum dauðanum byrginn í sjúkraflugi sínu. Enginn vafi leikur á því, að þeir voru æði margir sem áttu Birni Pálssyni líf sitt að launa, enda litu margir á hann sem lífgjafa sinn og áður en yfir lauk, hafði Flugþjónustan flutt á fjórða þúsund slasaðra eða sjúkra, fyrir utan alla þá sem ferðuðust með honum í venjulegu farþegaflugi. Þegar hringt var í Björn, oft að kvöldi eða nóttu, lá oft lífið við og hann brást við skjótt. Getur nærri hvort oft hefur ekki reynt á sálarþrekið þegar hann var sá eini sem gat bjargað fólki í neyð eða lífshættu og veðurskilyrði eða veðurútlit var slæmt, hættulegt eða ófært. Björn lenti flugvélum sínum á ótrúlegustu stöðum og oft var lendingarstaðurinn metinn af örvæntingarfullum mönnum, sem biðu með fárveikan sjúkling og lýstur upp að næturlagi með bílljósum eða olíuluktum.

Björn Pálsson flugmaður veitti íbúum dreifðra og afskekktra byggða öryggistilfinningu og átti vafalítið mikinn þátt í því að halda mörgum bæjum í byggð þar til öruggt vegasamband komst á. Björn eignaðist ekki aðeins aðdáendur og vini um allt land, hann fór ótaldar ferðir til Grænlands og sótti þangað bráðveika sjúklinga. Mörg sjúkrafluganna þangað, fór hann á eins hreyfils flugvélinni TF-HIS, einn og um hávetur í stuttri dagsbirtu og við verstu skilyrði og lenti á skíðum á snjóbreiðum eða ís.

Íbúar afskekktra byggða í Grænlandi dýrkuðu Björn. Agnar Kofoed-Hansen sagði í minningargrein um Björn Pálsson: „Sum sjúkraflug hans til Grænlands, um vetur á einshreyfils flugvél við verstu skilyrði, eru með því djarfasta sem hægt er að tefla og sleppa samt lifandi”. Huldir verndarvættir héldu sannarlega verndarhendi sinni yfir Birni og farþegum hans í þessum ferðum.

Ég, sem þetta rita, hafði að sjálfsögðu heyrt talað um Björn Pálsson flugmann og ég var svo lánssamur að kynnast honum þegar ég fór að vinna hjá Flugmálastjórninni vorið 1965. Segja má að ljóðlínan „Þéttur á velli, þéttur í lund, þrautgóður á raunastund”, hafi sannarlega átt vel við Björn.

Hann var afar aðlaðandi maður, ávallt glaður, hress og vingjarnlegur við háa sem lága, enda vinmargur og vinsæll maður. Öllum sem ég þekkti var afar hlýtt til hans og báru ekki aðeins mikla virðingu fyrir þessum geðþekka og þægilega manni, heldur fann hver sem honum kynntist, að þarna fór maður sem þjóðin öll mátti vera stolt af því að eiga, enda fór hróður Björns Pálssonar flugmanns langt út fyrir landsteinana. Hann var sannarlega orðinn þjóðsagnapersóna í lifanda lífi.

Björn Pálsson flugmaður starfaði í Rannsóknarnefnd flugslysa frá stofnun hennar 1. september 1968 til dauðadags og leiðir okkar lágu saman við aðkomu og rannsókn margra hörmulegra flugslysa næstu árin.

Flestir menn sem hafa kynnst sviplegum slysum og orðið áþreifanlega varir við návist dauðans og hans óvissa tíma, skilja vísast betur en aðrir hversu lífið er dýrmæt Guðsgjöf og hve mikils virði er að þakka og njóta þessarar gjafar. Björn skildi þetta afar vel og kunni vel að meta það líf sem forsjónin gaf honum og lifði hvern dag sífellt glaður og reifur. Hann naut hamingjuríks og ástríks fjölskyldulífs og mikils barnaláns þeirra hjóna. Þegar þau seldu hús sitt á Kleifarveginum fluttu þau inn í stórt og fallegt hús sem þau byggðu í brekkunni skammt innan við Reykjalund í Mosfellssveit og nefndu Heiði, eftir Heiði á Síðu, en þaðan var Sveinn faðir Sveinu ættaður. Björn var afar forsjáll maður og þarna sá hann möguleikana og framtíðarland fjölskyldunnar.

Hinn 26. mars 1973 var skyndilega klippt á þráðinn, þegar Björn fórst í flugslysi ásamt fjórum öðrum   mönnum. Flugvélin TF-VOR, sem var á leið til Reykjavíkur frá Akureyri, skall til jarðar í Búrfjöllum norðan við Langjökul, eftir að mikil ísing hlóðst á hana og hreyflarnir misstu aflið. Það var kaldhæðni örlaganna, að í þessu síðasta flugi Björns Pálssonar skyldi hann hafa verið farþegi en ekki við stjórn flugvélarinnar. Hann gekk því ósigraður af glímuvellinum við náttúruöflin.

Ég fór á slysstaðinn með þyrlu Varnarliðsins í birtingu næsta dag, eftir að flak TF-VOR fannst. Það voru þung spor, sem ég þurfti að ganga yfir melinn, þar sem þyrlan lenti og að flaki TF-VOR, sem lá þarna á fjallsbrúninni. Þar var ekki aðeins Björn Pálsson flugmaður látinn, heldur einnig Haukur Claessen, varaflugmálastjóri, og Hallgrímur Magnússon, trésmiður, báðir vinnufélagar og vinir mínir hjá Flugmálastjórn, svo og Knútur Óskarsson, flugmaður, æskufélagi og skólabróðir minn, svo og Ólafur Júlíusson, tæknifræðingur, sem vann tiltekin verk fyrir Flugmálastjórnina.

Það var erfitt að trúa því að þetta væri raunveruleikinn blákaldur. Ég persónulega hafði ekki aðeins misst vini og starfsfélaga, þjóðin sá á bak mætum sonum sínum. Punktur hafði verið settur aftan við síðasta orðið í sögu Björns Pálssonar, bjargvættar hinna sjúku og nauðstöddu, sögu manns, hvers minning og orðstír mun lifa með ókomnum kynslóðum.

Skúli Jón Sigurðarson skrifaði þessa grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2008. Hann gaf góðfúslega leyfi til birtingar hennar og meðfylgjandi mynda á þessu vefsetri.

Eins og sjá hér að neðan, tengdar færslur er nat.is að reyna að halda jafnframt um gamlar og nýjar heimildir:

Myndasafn

Í grennd

Reykjavíkurflugvöllur
Vorið 1919 kom Rolf Zimsen, flugmaður og frændi borgarstjórnans Knud Zimsens, til landsins til að  aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Honum l…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )