Bíldsey er norð-norðaustan Stykkishólms. Árið 1702 bjuggu þar 16 manns, þegar verbúðir höfðu lagzt af vegna fiskleysis. Þar voru þó þrír bátar, fimm nautgripir og sautján ær. Eyjunni var skipt þannig, að Arney naut hlunninda tengdum eggja- og dúntöku og sela- og lundaveiða annað hvert ár á móti Bíldseyingum. Árið 1920 voru íbúarnir fimmtán en eyjan fór í eyði 1946.
Foreldrar Sigurðar Breiðfjörðs, Eiríkur og Ingibjörg, hófu búskap í eyjunni. Ungur og fagur huldumaður sótti að Ingibjörgu, þegar Eiríkur var við róðra undir Jökli, og vildi fá hana til sín.
Feldarhólmur, þar sem feld Einars skálaglamms mun hafa rekið á land, er rétt sunnan Bíldseyjar. Þar er talsvert af skarfi og nokkur lundaveiði. Hólmurinn telst til Fagureyjar líkt og margir nytsamir hólmar, sem liggja þó nær öðrum eyjum. Líklega eru þeir gamlar sáluhjálpargjafir til hálfkirkjunnar í Fagurey.