Bakkagerðiskirkja er í Desjamýrarprestakalli í Múlaprófastsdæmi. Skammt frá Álfaborg í Borgarfirði, neðst í þorpinu, stendur Bakkagerðiskirkja. Áður var kirkja á Desjarmýri en sú, sem nú stendur í Bakkagerði var vígð 1901.
Í kirkjunni er forkunnarfögur altaristafla, máluð af Jóhannesi Kjarval 1914. Hún sýnir Krist flytja fjallræðuna, standandi á Álfaborginni með Dyrfjöll í baksýn. Þessi altaristafla fékkst ekki vígð, vegna þess, að myndsvið hennar er Álfaborgin. Taflan er eitt merkasta listaverk Kjarvals og stór hluti ferðamanna sem heimsækja Borgarfjörð skoðar hana.