Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Auðkúlukirkja

Auðkúlukirkja er í Bólstaðarhlíðarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Kirkja var reist á Auðkúlu við   Svínavatn þegar í öndverðri kristni. Getur hér veglegrar trékirkju og var að henni tveggja presta skyld. Var staðurinn auðugur og hefðarból, enda landflæmi mikið og afréttartekjur háar. Svo mikils háttar bújörð var Auðkúla, að Jón biskup Arason hélt staðinn um tíma í ágóðaskyni. einungis einn prestur sótti burt af staðnum á 17. öld og annar á 18. öld, en enginn síðan, unz brauðið var lagt niður 1951.

Hið mikla víðlendi staðarins á Auðkúluheiði var selt Svínavatns- og Torfalækjarhreppum og heimajörðinni skipt í 3 býli. Kirkjuhúsið, sem nú stendur, var reist 1894. Yfirsmiður var Þorsteinn Sigurðsson á Sauðárkróki. Kirkjustæðið var flutt suður og upp fyrir garðinn og stóð gamla kirkjan til haustsins, er komið var að vígslu hinnar nýju. Séra Hjörleifur Einarsson prófastur á Undirfelli vígði kirkjuna og gat hann þess í bréfi til biskups, að þegar gamla Auðkúlukirkjan var tekin ofan, hefði síðasta torfkirkjan horfið af sviðinu í Húnaþingi. Auðkúlukirkja var fimmta kirkjuhúsið, sem séra Hjörleifur vígði á 5 árum. Hin voru í Bólstaðahlíð og Víðidalstungu 1889, á Holtastöðum 1892 og á Breiðabólstað 1894. Prófastur kallar hina nývígðu Auðkúlukirkju „áttstrent, virðulegt musteri“. Má það til sann vegar færa, og á kirkjan aðeins eina viðlíkingu á landinu, sem er Silfrastaðakirkja. Minnir lögun kirkjuhúsa á ævaforna byggingarhefð hringlaga húsa grjóthlaðinna, en eins og gefur að skilja er óhjákvæmilegt að hafa kantaðan hring, beinar grunnlínur, á timburhúsi. Eru einkum slík kirkjuhús all tíð í þjóðlöndum grísk-katólskra, þ.e. í A-Evrópu. Auðkúlukirkja er, þegar grannt er skoðað, sporöskjulöguð, því að þilveggir, sem eru 2,3 m, hornaþilin 4 eru 2,1 m, en miðjuþil 3,63 m, innanmál. Kirkjubekkir eru skásettir og horfa við altari, en fram til 1930, er kirkjan var afhent söfnuðinum, var ekki predikunarstóll í henni. Var svo látið heita, að tæki 80 í sæti, en þröngt hefur verið setið. Fækkaði sætum, er stóllinn kom til og einnig, er ofn var settur að norðan við altari, þar sem nú er aðstaða fyrir kirkjusönginn og hljóðfærið.

Altarið er sneitt á hornum og snúa 3 spjaldahliðar fram, en gráturnar eru fimmstrendar, hvort tveggja í samræmi við stíl hússins. Klæði ásaumað eftir fyrirmynd á patínu, sem er gömul og góð við samstæðan kaleik, hnúðstóran og vænan, en yfir altarinu páskabjört tafla, málverk Andreas Tåstrups 1875, myndefnið: Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn. Önnur tafla, íslenzk og máluð á tréspjöld í fyrra sið, er á þilvegg, dýrmætur forngripur eins og hin eldri kirkjuklukka, sem er þykk mjög og gefur tregan hljóm. Hin klukkan er frá 1755 og með hinu nýrra lagi og hljómfögur.

Getur hún verið hingað komin frá Hjörsey á Mýrum, en kirkja þar aflögð. Tveir mjög vandaðir koparstjakar eru á altari, renndir og á þrífættri stétt, en fyrir miðju gamall þrífættur stjaki, er ber 3 kertapípur. Gamalt skírnarfat af messing, eirhúðað og með hring, hangir á þili. Á botni þess er mynd af páfugli með lárviðargrein í nefi. Er það vart yngra en frá 16. öld. Þeim, sem skoða vilja kirkjuna, skal bent á, að í þeim heimabænum, sem fjær er kirkjunni, er geymdur lykill, en sóknarpresturinn situr á Blönduósi.

 

Myndasafn

Í grennd

Kirkjur á Norðurlandi
Listi yfir flestar kirkjur í landshlutanum Akureyrarkirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )