Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Álfaborg

Klettaborg, rétt við þéttbýliskjarnann, Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Af henni dregur fjörðurinn nafn  . Þar mun vera mjög blómleg álfabyggð og sagt er að í Álfaborg búi álfadrottning Íslands. Góður göngustígur liggur upp á Álfaborgina en þar er hringsjá, gjöf frá átthagafélagi Borgfirðinga í Reykjavík. Álfaborg og hennar nánasta umhverfi er friðlýstur fólkvangur. Vestan við Álfaborg er gott tjaldstæði.
Söguslóðir á Austurlandi

BORGHILDUR ÁLFKONA

Álfaborg heitir klettur mikill, líkur herborg, sem stendur á sléttum mýrum fyrir miðjum botni Borgarfjarðar eystri í Múlasýslu. Mun fjörðurinn draga nafn af borg þessari.
Álfaborg var hún kölluð af því að það var alþýðu trú að þar væri höfuðból æðstu álfa og höfðingja huldufólks á Austurlandi, er var geysimargt. Því trúðu menn einnig að kirkja þessara borgarmanna og sveitunga þeirra væri í steini, mjög líkum húsi að lögun, fremst í þröngum dal sem liggur fram af Borgarfirði og Kækjudalur heitir. Er steinninn nefndur Kirkjusteinn og þóttust menn oft verða þess varir að huldufólk reið þangað.

Jökulsá heitir næsti bær fyrir framan Álfaborgina, þeim megin Fjarðarár. Einu sinni bjó þar bóndi sem hélt vinnukonu þá sem Guðrún hét. Einhvern sunnudag um sumar fóru allir þaðan til kirkju að Desjarmýri nema vinnukonan; hún var ein heima. Húsmóðir hennar bað hana að skaka og hirða málnytu (afrakstur einna mjalta) þegar hún væri búin að smala og mjalta féð. Fór svo fólkið til kirkunnar en stúlkan að smala. Mjólkaði hún svo ærnar og hleypti þeim ofan á eyrarnar fyrir neðan bæinn. Eftir það fór hún að matselda og þegar hún hafði lokið búverkum kom hún út á hlað og skyggndist þaðan um, bæði eftir ánum og öðru sem fyrir hana bar. Sér hún þá margt fólk ríða fram eftir götunum sem liggja neðan við túnið á Jökulsá. Þessir menn voru margir saman og riðu allir í litklæðum á fjörugum hestum og fallegum. Hún furðar sig á hve seint þetta fólk fari til kirkju. Allir fóru þeir framhjá bænum nema kona ein; hún reið upp túnið og heim á hlaðið. Þessi kona var göfug ásýndum og sælleg en hnigin á efra aldur. Hún heilsar stúlkunni og segir:
„Gef mér skekna mjólk að drekka stúlka mín.“
Stúlkan hljóp inn, fyllti trékönnu með áfum og færði henni en konan tók við og teygaði. Þegar hún gaf upp spurði vinnukonan:
“ Hvað heitið þér?“
En konan svaraði engu og fór aftur að drekka annan teyg. Spyr þá vinnukonan hana aftur sömu spurningar en konan svarar enn engu og fer að drekka. Þegar hún hafði drukkið úr könnunni og lagt lokið yfir sér stúlkan að hún fer inn í barm sinn og tekur þaðan fallegan léreftsklút, leggur ofan á könnulokið og fær henni um leið og hún þakkar henni fyrir. þá spyr stúlkan enn í þriðja sinn:“Hvað heitið þér?“
„Borghildur heiti ég, forvitna mín“ segir konan, sló hestinn svipuhögg og reið úr hlaðinu á eftir fólkinu og náði því. En vinnukonan horfði á eftir því og sá það seinast til þess að það reið inn hjá gráum steini utan til í svonefndum Kollutungum. Þar er leiðin inn til Kækjudals.
Leið svo og beið þangað til fólkið kom heim um kvöldið frá kirkju. þá sagði vinnukonan frá því sem fyrir sig hafði borið um daginn og sýndi fólkinu klútinn sem henni var gefinn. Var hann svo fallegur að enginn þóttist slíkan séð hafa og er sagt hann hafi gengið milli höfðingskvenna á landinu. Reiðfólk það sem vinnukonan sá átti að hafa verið huldufólk úr Álfaborginni og ætlað til kirkju í Kirkjusteininn í Kækjudal.
Úr þjóðsögum J.Á. Stytt og orðalagi örlítið breytt. Ó.Þ. Álfar og tröll.

STÚLKA GIFTIST Í ÁLFABORGINA

Sú trú er allforn að í svonefndri Álfaborg í Borgarfirði búi huldufólk. Það varð einu sinni á jólahátíð að hjón ein er bjuggu að Jökulsá og áttu mörg börn, fýstust að fara til Desjarmýrarkirkju með þau. Vinnukona var hjá þeim ung og fríð sýnum. Eigi er getið um nafn hennar. Hjónin báðu hana vera heima að gæta búsins meðan þau væru við kirkjuna en þangað er lítill spölur. Átti hún einnig að líta til fjárins þar í kring. Nú fara þau öll til kirkjunnar. En stúlkan starfar að búverkum í eldhúsi nokkra stund. Verður henni þá gengið út; sér hún þá að komin er kafaldshríð, mikill vindofsi og snjóburður; hún bregður við hið snarasta og vindur sér útí mokkinn að bjarga fénu. En eigi hefur hún lengi gengið áður hún villtist og lendir loks að stórum steini. Er hún þá magnþrota og leggst þar fyrir. Hyggur hún sér þá dauðann vísan. En þá vill svo til að allt í einu kemur þar fjárhópur nokkur; fer mórauð ær fyrir og etur horngarðinum í veðrið. Á eftir hópnum kemur ungur maður fríður og drengilegur. Hvorki þekkir hún manninn eða féð. Þegar kindurnar runnu framhjá snýr maður þessi sér að stúlkunni og heilsar henni vingjarnlega. Hún tekur því og segir: „Hver ertu og hvar áttu heima?“ Sigurður heiti ég og á ég heima hérna í Álfaborginni og skaltu velkomin að fylgja mér þangað því eigi er þér lífvænlegt hér.“ Hún játti því og spyr hvort margt fólk búi í borginni. Hann kveður það vera margt og gott í hinum nyrðra hluta en all-blandið og margskonar syðra megin. „Og skaltu eigi láta á þig fá þótt móðir mín verði svipyggld við þig.“ Hún heitir því. Koma þau nú að syðri hluta borgarinnar. Rekur Sigurður féð inn í aðrar dyr. Svo tekur hann í hönd stúlkunnar og leiðir hana inn um hinar. Koma þau í herbergi eitt. Er þar fyrir kerling móðir Sigurðar. Þau heilsa henni. Hún tekur eigi undir við stúlkuna en segir við son sinn þurrlega:
„Hvar fannstu gersemi þessa?“ „Hérna hjá Kjóahraunsvaðinu,! Segir hann.
„Hún hefði látist þar hefði ég eigi fundið hana.“
Sigurður sest á rúm sitt og bendir stúlkunni að gera það líka. Kerling fer nú ofan og sækir þeim mat. Stúlkan signir þá mat sinn.
„Hvað ertu að krafla og káfa, ólukku kindin?“ segir kerling, tekur vönd og ber allt húsið innan með andfælum miklum. Stúlkan svaf hjá Sigurði um nóttina. Um morguninn segir hann:
„Nú er hríðrof og muntu heim fara. En fundið hefur bóndi fé sitt“. Hún kvaðst heim fara,
„en vandlaunað er þér. Skaltú þiggja gimbur mórauða er ég á og eru það lítil laun“.
„Svo að einu þigg ég hana að þú fylgir sjálf með og farir til mín í vor því ég ann þér.“
„Svo skal vera,“ segir hún og fer heim.
Segir hún sögu sína en eigi trúlofun. Síðla um veturinn hvarf Mosa hennar og vildi hún eigi láta leita hennar. En um vorið hvarf stúlkan sjálf og sást eigi síðan. En svo segir kona ein að Bakka löngu síðar að hún væri gift kona í Álfaborginni. Kvaðst hún hafa setið fjórum sinnum yfir henni í barnsnauð.

„E.s. Guðnýjar Tómasdóttur í Fjarðarseli í Seyðisfirði 1904.“ Sjá Þjóðs: J.Á. I, 26.

 

Myndasafn

Í grennd

Álfatrú
Margar sögur tengdar álfum og huldufólki og samskiptum þeirra við mannfólk eru til úr Borgarfirði.   álfabyggða í Borgarfirði má nefna Álfaborg, þar s…
Borgarfjörður eystra
Borgarfjörður eystra er nyrstur fjarða, sem ganga inn í Austfjarðahálendið. Borgarfjörður liggur á mótum blágrýtissvæðis og líparítsvæðis og má þar fi…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )