Foss á Síðu er stórbrotið bæjarstæði um 10 km fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fallegur foss fellur ofan af klettunum ofan við bæinn, úr vatni sem nefnist Þórutjörn. Þetta stórkostlega sjónarspil fangar athygli allra sem leið eiga um. Greiðfær gönguleið er upp að Þórutjörn og þaðan er fallegt útsýni yfir Síðu. (Frárennslið liggur til Fossála). Ganga verður nokkuð á brattann 1-2 km til vatnsins frá vegi. Skammt frá Fossi á Síðu eru einnig Dverghamrar. Dverghamrar eru sérkennilegar og fagurlega formaðar stuðlabergs klettaborgir úr blágrýti.