Purkey er ein eyjanna í Dalasýslu. Milli hennar og Skáleyjar er Skálastraumur og þar er hægt að komast yfir á stórstraumsfjöru nokkurn veginn þurrum fótum. Purkey er vogskorin með fjölda tanga, rifja og hólma umhverfis. Svíney hét hún í fornum ritum og þar bjó Æsa Kjallaksdóttir, hverrar sonur var Eyjólfur, sem veitti Eiríki rauða að málum og hjálpaði honum að komast til Grænlands.
Austust og nyrzt er bæjareyjan. Þar var bærinn og túnið suðvestanvert og þaðan vestar er Bæjarvogur. Skarðskirkja átti lengi bænhús í Purkey. Fjöldi örnefna er í eyjunni, þ.á.m. er Hjallholt og Fossrif, þar sem er hálfbyggð kornmylla, sem aðfalls- og útfallsstraumar knúðu.
Stekkjarey er norðvestan bæjareyjarinnar. Nærri Staðarklettum og eitt lítið austar er Æsudys. Helganaust er allstór eyja nokkurn veginn 1 km austan bæjareyjarinnnar. Hún fékk nafn af reknu líki. Þar er og Helgatótt og þar var svo reimt, að fæstir, sem voru í heyskap í í eyjunni, lögðu sig til svefns. Þaðan norðanaf er Knarrarbrjótur, straumur, sem braut skip. Gussey er lítið sunnan túnsins. Þar er hæðin Haus með Teitsbóli, sem á að tryggja, að grafnir menn vakni ekki til lífs á ný.
Purkey er mjó um miðjuna. Sunnan í henni gengur Miðey og þaðan Miðeyarrif yfir á Músanes, þar sem eyjan breikkar aftur. Mörg örnefnanna á eyjunni eru líklega frá landnámsöld.
Jón Árnason studdist mikið við álfafrásagnir Ólafs Sveinssonar (†1845) frá Purkey. Álfarit Ólafs varð honum að innblæstri og er aðallega prentað í nýustu útgáfunni. Ólafur trúði sjálfur mjög á huldufólk og sagði m.a.: „Þessi ey Purkey er mikið byggð af þess konar fólki, og er misjafnt í sínum tegundum sem vér. Oft hefur fólk, sem hér hefur verið, séð skip er huldufólk hefur á verið og hefur heyrt til þá það hefur lent og sett skip sín og heyrt manna mælgi, en ei orðin hreint skilið. Helzt hefur það við borið á sunnudögum þá þar hefur frá sinni kirkju komið er það sókt hefur til eins og við til okkar. Oft hafa sézt kindur hér, er þessu fólki hafa við komið og kvenfólk líkt búið og heimafólk hér…. Misjafnan aldur fær þetta huldufólk eins og vér. Sjúkdómar heimsækja þetta fólk so það mjög þjáist af þeim með ströngum verkjum so það lætur sitt líf. Einstöku maður þess kyns verður mjög gamall og liggur í kör. Skunnkuldi er nokkur á þessu fólki… (Þjóðsögur Jóns Árnasonar VI, s. 6-7, 30).
Síðasti bóndinn í Purkey dvaldist þar að mestu allt árið til 1982 nema um háveturinn, þótt reglulegum búskap hafi verið hætt á áttunda áratugnum. Hlunnindi eyjarinnar eru nytjuð á sumrin.