LÍTIÐ EITT UM HVALI (eftir Árna Waag; Mbl. 7/7 1985. Birt með hans leyfi).
Enn í dag 2023 hafa hvalirnir verið sveipaðir leyndardómsfullum blæ frá alda öðli.
Hvalveiðar á Íslandi er partur af sögu Íslands.
Fram að árinu 1979 voru hvalir yfirleitt ákaflega lítið í hugum flestra Íslendinga. Alla vega hafa hvalirnir verið sveipaðir leyndardómsfullum blæ frá alda öðli og átt mikinn þátt í ýmiss konar kynjasögum og bábiljum um þessi dýr, einkum hin stærri. Jón lærði segir í hinni frægu bók sinni „Um Íslands aðskiljanlegu náttúru“ frá illhvelum eða „vondum fiskum“, eins og hvalir voru kallaðir á fyrri tímum. Illhvelin áttu að vera „síþyrst í manndráp og skipsskaða“. Átti þetta við um tegundir, sem eru hinar mestu friðsemdarskepnur. Til þess að vega upp á móti „vondum fiskum“ gerðu menn steypireyðina og fleiri reyðarhvali að „góðum fiskum“ senda af skaparanum til að halda hinum í skefjum. Þeir voru látnir gera meira. Þeir ráku síldina og jafnvel þorskinn að landi og inn í firði, svo að mennirnir gætu náð í hann, þegar hann vildi ekki koma af eigin hvötum. Ekki er unnt að fullyrða um sannmæli þessa, en úti við strendur NV-Afríku hefur frá fornu fari tekizt samvinna á milli fiskimanna og höfrunga, þar sem þeir síðarnefndu reka fisktorfur að landi þeim fyrrnefndu til mikilla hagsbóta. Það hefur sem sé verið mikil hula yfir þessum hópi spendýra á liðnum tímum og gætir þessa jafnvel enn þá.
Talið er fullvíst, að hvalir séu komnir af ferfættum landspendýrum. Fyrir 65-70 milljónum ára leituðu þau fyrstu til sjávar og 10-20 milljónum árum síðar komu fram lífverur, sem unnt er að nefna eiginlega hvali.
Hvalir teljast til sérstaks ættbálks, sem skiptast í þrjár undirættir:
1. Fornhvali
2. Tannhvali
3. Skíðishvali
Fornhvalir dóu út fyrir u.þ.b. 20 milljón árum. Þegar talað er um stórhveli, er oftast átt við skíðishvali, en þeir verða allir, að hrefnunni undanskilinni, meira en 10 m langir. Steypireyðurin, stærsta dýr, sem nokkru sinni hefur lifað á jörðinni, verður allt að 30 m löng og getur orðið 150 lestir að þyngd. Tannhvalirnir eru allir minni en 10 m, að búrhvalnum undanskildum, en hann verður nálægt 17 m langur allt að 40 lestum að þyngd.
Tannhvalir hafa tennur í efra eða neðra skolti eða báðum, sem þeir nota til að grípa fæðuna með, sem er aðallega fiskur og smokkfiskategundir. Skíðishvalir hafa hins vegar hornkenndar plötur, kögraðar að innan í efri skolti, sem notaðar eru til fæðuöflunar, en fæða þeirra er einkum krabbasvifdýr og uppsjávarfiskur.
Allar skíðishvalategundir hér við land eru mikil fardýr og eru þær fyrst og fremst hér að vor-, sumar- og haustlagi, þegar fæðuframboð er hvað mest. Á veturna halda þær í átt að miðbaug, oft um mörg þúsund km leið. Tannhvalir eru yfirleitt ekki eins mikil fardýr, að undanskildum búrhvalnum, þó þeir ferðist allmikið á milli.
Fullvaxnir tannhvalstarfar eru oft verulega stærri en kýrnar, en stærðarmunur kynjanna er lítill hjá skíðishvölum, þótt kýrnar séu heldur stærri.
Tannhvalir eru oft fjölkvænisdýr með flókið félagsatferli, en skíðishvalir einkvænisdýr.
Hægri og vinstri hauskúpuhelmingar tannhvala er ekki eins, en svo er hins vegar farið með skíðishvali. Þá hafa tannhvalir m.a. aðeins eitt blástursop ofan á hausnum og er það oft staðsett á öðrum hauskúpuhelmingi. Blástursop skíðis-hvala eru alltaf tvö, sitt á hvorum hauskúpuhelmingi.
Eins og áður segir, eru hvalir spendýr með jafnheitt blóð og hafa orðið að laga sig að lífi í umhverfi, algerlega ólíku því, sem forfeður þeirra lifðu við. Hvalir eru eini ættbálkur spendýra, sem er óháður landi með öllu. Selir og sænaut eru háð landi. Þeir fyrrnefndu verða að fæða kópa sína á þurru og sænaut eru háð gróðri við strendur.
Þegar höfð er í huga sú óhemju breyting, sem hefur orðið á þessum lífverum, er ekki unnt að komast hjá því að undrast og drjúpa höfði í lotningu fyrir móður náttúru. Því er e.t.v. við hæfi að segja frá nokkrum þáttum í þessu stórbrotna þróunarferli.
Straumlínulaga líkamsbygging hvala minnkar viðnám þeirra og sparar þannig orku. Þeir hafa slétta og hárlausa húð. Þó eru skíðishvalir og ferskvatns-höfrungar með lítið eitt af hárum um munnvikin, en þau eru skynfæri, notuð einkum af hinum síðarnefndu dýrum, þegar þau róta upp botni gruggugra stórfljóta í ætisleit. Hvalir hafa engin ytri eyru og engan eiginlegan háls eða baklimi. Leifar baklima er að finna aftarlega á líkamanum, lausar í holdinu og gera ekkert gagn.
Sundfimi hvala er mikil og nauðsynleg, þegar þarf að afla fæðu og ferðast um langa vegu. Þeir nota lárétta sporðblöðkuna til sunds og með lóðréttum hreyfingum stirtlunnar geta hvalir náð miklum hraða, eða allt að 50 km á klst., þegar mikið liggur við, en fara að öllu jöfnu mun hægar. Þeir nota bægslin eingöngu til stýringar og jafnvægis. Í bægslum eru sams konar bein og hjá mönnum og öðrum spendýrum.
Djúpköfun. Sumar tegundir hvala geta kafað ótrúlega djúpt, allt niður á 200 m dýpi. Má þar nefna búrhval og andanefju. Í kafi geta þessar tegundir verið í 1-2 klst., sem er með ólíkindum. Þetta er hvölum mögulegt vegna þess, að þeir geta m.a. tæmt lungun nær algerlega, svo að meira af súrefni kemst fyrir í þeim, þegar þeir kafa aftur. Þá er blóðrauði hvala (myoglobin) öðruvísi en í öðrum spendýrum að því leyti, að hann bindur mjög mikið af súrefni. Auk þess er meira af honum í blóðinu en hjá öðrum spendýrum. Þá ber að geta þess, að hvalir þola meira af koltvísýringi mjólkursýri í vefjum sínum en önnur spendýr án þess að verða fyrir áhrifum.
Temprun líkamshita. Hvalir eru með jafnheitt blóð og er líkamshiti þeirra 36°C. Verður að halda honum á því stigi, annars verður dýrið sjúkt eða deyr. Þeir lifa í sjó, sem getur verið frá frostmarki og allt upp í 20-30°C. Til að verjast hitatapi hafa hvalir þykkt spiklag undir þunnri húðinni, sem einangrar mjög vel. Þá losa þeir sig við umframhita með e.k. mótflæðishitatemprun í bægslum, sporðblöðku og bakhorni. Þegar dýrið þarf að losa sig við umframhita, streymir blóðið til þessara hluta líkamans, þar sem blóðir kemst næst sjónum. Þar fer það í gegnum þéttriðið háræðanet og kólnar. Síðan fer það aftur um bláæðar inn í líkamann. En hitaskipti felast einnig í því, að blá- og slagæðar liggja mjög þétt saman. Loks má nefna, að það lokast fyrir blóðstreymi út í yzta lag húðarinnar, þega koma á í veg fyrir hitatap.
Stærð. Það að vera stór er eitt af aðlögunareinkennum hvala. Landdýr gætu aldrei orðið eins stór og stórhvelin vegna þess að ganglimirnir yrðu að vera svo stórir og klunnalegir til þess að geta borið þann þunga, sem stærðin hefði í för með sér. Auk þess, sem hreyfingar allar yrðu svo stirðar, að þær kæmu ekki að gagni. Hin mikla stæðr hvala byggist á því, að flotkraftur sjávarins heldur þunga þessara risa að miklu leyti uppi. Stór dýr hafa hlutfallslega minna yfirborð en lítil. Minna yfirborð þýðir minna hitatap. En eitt dæmi um stórleik móður náttúru.
Sérhæft fæðunám. Sérhæfingin felst m.a. í því, að hvalir ferðast um óravegu frá hlýsjávarsvæðum, þar sem fæða er stopul til kaldsjávarsvæða, þar sem fæðuframboð er mikið að sumarlagi. Vegalengdir skipta þúsundum km á hverju ári. Sérhæft fæðunám er einnig falið í eiginleikum hvala í því að safna miklu magni af spiki undir húðina, sem þeir nota sem næringarforða til vetrarins.
Háþróað bergmálskerfi hvala gegnir einnig mikilvægu hlutverki við aðs staðsetja bráð. Oftast eru engin tök á að slíkt geriðst í kolamyrkri undirdjúpanna. Ekki er nóg með að hvalir staðsetji bráð sína, heldur eru þeir færir um að greina tegund hennar magn og fjarlægð.
Tjáskipti. Hljóð berast fjórum til fimm sinnum hraðar í legi en á láði. Hvalir hafa þróast með tilliti til þessarar staðreyndar. Nær öll tjáskipti þeirra fara fram með þeim hætti, að þeir senda frá sér hljóðbylgjur, sem þeir nema, þegar þær endurkastast við að rekast á eitthvað, sem verður á vegi þeirra. Nákvæmnin er svo mikil, að sagt er að hvalir „sjái“ með heyrnarfærunum. Í sædýrasöfnum erlendis hafa lokur verið settar á þjálfaða höfrunga til að byrgja þeim sýn og þeir látnir sækja hluti af mismunandi gerðum, sem kastað hefur verið út í laugina til þeirra. Þessi sýningaratriði bregðast svo til aldrei. Eina skilyrðið til þess að höfrungunum heppnist þetta, er að sá, sem þjálfar þá, sé með hendina niðri í vatninu. Höfrungarnir verða að fá endurkast hljóðbylgna frá hendinni. Með hinum einstæðu eiginleikum hvala til þess að nema hljóðbylgjur, hafa þeir þróað með sér fullkomið „málkerfi“, sem sérfræðingar vítt og breitt um allan heim eru að reyna að kryfja til mergjar. Það verður þungur róður, því að „málið“ er vægast sagt mjög erfitt. Talið er, að þær tilraunir, sem verið er að framkvæma í þessu sambandi, hafi leitt í ljós, að maðurinn hafi komizt næst því að komast í „talsamband“ við aðra dýrategund en hann sjálfan.
Öfugur burður. Allar tegundir spendýra fæða afkvæmi sín með höfuðið fyrst. Ef á því verður brestur, er eitthvað að og verður að gera ráðstafanir til þess, að fæðingin geti blessast. Á þetta að sjálfsögðu við, þegar um konur og húsdýr er að ræða. Hvaldýr fæða neðansjávar. Ef fæðingin færi fram á sama hátt og hjá spendýrum, er sennilegt, að kálfurinn kafnaði, því að sambandið við blóðæða-kerfi kýrinnar rofnar fyrr, þegar fæðingin fer fram með þessum hætti. Því fer öfug fæðing fram hjá hvalkúm, þ.e.a.s. stirtlan birtist fyrst. Við fæðinguna er mjög oft annar hvalur til taks hjá kúnni. Sézt hefur, þegar „ljósmóðirin“ hefur aðstoðað við að koma kálfinum upp að yfirborðinu.
Hér hafa verið taldir upp nokkrir þeir aðlögunarþættir, sem aðskilja þennan hóp lífvera frá öðrum spendýrum. Margt er á huldu um lífshagi þeirra og nánast óplægður akur bíður þeirra, sem hafa hug og þekkingu til að takast á við verkefni eins og þetta.
Rannsóknir á hvölum hafa nær eingöngu farið fram í sædýrasöfnum og hvalveiðistöðvum. Er vitað mikið um líffærafræði þeirra tegunda, sem mest hafa verið veiddar á liðnum árum. Þá hefur mikill fróðleikur fengizt við margs konar tilraunir á höfrungum og háhyrningum í sædýrasöfnum og tilraunastöðvum. Aftur á móti er þekking manna á hvölum úti á sjó, þar sem þeir eru frjálsir, mjög af skornum skammti. Að vísu hafa menn öðlast einhvern fróðleik, þegar farið hefur verið á hvalaslóðir, en í litlum mæli.
Jóhann Sigurjónsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, tók til starfa við hvalarannsóknir árið 1975. Á þessum stutta tíma hefur þekking aukizt verulega á lífsferli hvala hér við land. Það á þó einkum við um þær tegundir, sem hafa verið veiddar mest undanfarin ár. Tegundirnar eru langreyður, hrafnreyður (hrefna) og búrhvalur. Minni vitneskja hefur fengizt um sandreyðina, enda ekki eins mikið veidd og göngur hennar hér við land eru líka ekki eins reglubundnar og hjá hinum tegundunum.
Rannsóknir Jóhanns hafa einkum beinzt að því að fá vitneskju um stofnstærð og ferðir þeirra hvalategunda, sem hafa hagnýtt gildi. Vegna þess, að veiði á langreyði hefur verið meiri og stöðugri en hinna tegundanna, er vitað meira um hana en aðrar tegundir hér við land.
Leitazt hefur verið við að finna, hvenær hvalirnir ná kynþroskaaldri. Í því skyni hafa hvalirnir verið aldursgreindir og eggjastokkar athugaðir. Á síðustu árum hafa verið merktir á fjórða hundrað hvalir hér við land. Með merkingum er unnt að öðlast upplýsingaru um ferðir þeirra, útbreiðslu og göngur, svo og til glöggvunar á stofnstærðum og veiðiþoli tegundanna. Merkingar hafa sýnt, að sömu hrafnreyðar, lang- og sandreyðar koma árvisst hingað á miðin. Merkingar hafa þegar sýnt, að samband er á milli langreyðarstofna við Ísland og Grænland. Hvalir, merktir með útvarpssenditækjum, gefa auk þess mikilsverðar upplýsingar um athafnir þeirra úti í sjó, þar sem þir eru frjálsir. Slíkar merkingar hafa rutt sér til rúms nú hin síðustu ár og eru miklar vonir bundnar við þessar aðferðir til að kanna enn frekar lífsferli hvalanna úti í náttúrunni. Rannsóknir á taugakerfi hvala og náin kynni við einstakar tegundir þeirra, einkum höfrunga, hafa leitt í ljós, að miðtaugakerfi þeirra er háþróað. Þeir eru mjög fljótir að læra ýmsar flóknar þrautir, sem fyrir þá eru lagðar. Höfrungar hafa ennfremur sýnt eigin frumkvæði, sem bendir til rökréttari ályktana en finnast meðal annarra spendýra að undanskildum manninum. Til eru forngrískar og rómverskar sagnir u, að höfrungar tækju ástfóstri við menn og hefðu brugðið sér af sjálfsdáðum á leik með þeim. Einnig eru sagnir um, að þeir hafi bjargað mönnum frá drukknun. Löngum héldu menn, að þessar frásagnir væru bábiljur einar, byggðar á hjátrú og hindurvitnum. Annað hefur komið á daginn. Á seinni hluta 19.aldar og fyrri hluta þessarar gerðist sá atburður, sem lengi mun í minnum hafður. Á árinu 1871 tók höfrungur einn að fylgja skipum um óhreint sund við Nýja-Sjáland, þar sem stríðir straumar voru. Fyrst kom hann syndandi á móti skipunum eins og í glöðum leik, en þegar kom að sundi þessu hætti höfrungurinn öllum galsa og færði sig fyrir fram stefni skipsins einbeittur mjög og lét ekkert koma sér úr jafnvægi fyrr en skipin voru komin heilu og höldnu í gegn. Í 40 ár kom þessi heillahvalur fagnandi á móti skipum, sem áttu leið um sundið illræmda. Í öll þessi ár fórst aðeins eitt skip á þessum stað. Drukkinn farþegi skaut á höfrunginn. Hann fylgdi þessu skipi aldrei upp frá því. Frá því að hann hóf að fylgja skipum, hefur þessi höfrungur vafalaust bjargað þúsundum mannslífa. Með þakklátum huga reistu sjómenn, útgerðarmenn og farþegar minnisvarða um þennan merkilega höfrung. Minnisvarðinn stendur enn þá við strönd Wellington, höfuðborgar Nýja Sjálands. Stjórn landsins samþykkti lög í þá veru, að stranglega væri bannað að gera höfrungnum nokkurn miska. Er þetta í eina skiptið í sögunni, sem sett hafa verið lög til verndar einstaklingi innan dýraríkisins.
Á þessari öld hafa mörg atvik borið við, sem staðfesta enn frekar þá fullyrðingu, að sumar tegundir hvala búi yfir eiginleikum, sem sumir nefna greind. Talið er, að þær tegundir hvala, sem menn hafa reynslu af, eins og háhyrningur, stökkull o.fl., séu fljótari að skynja flókin verkefni, sem lögð eru fyrir þá en önnur spendýr. Jafnframt hafa tegundir þessar sýnt, að þær standa flestum dýrum, öðrum en manninum, framar í hæfni til ályktunar. Þróunarferill hvala hefur átt sér stað í sjó og hefur því miðtaugakerfi þeirra þróast á þann veg, að það hentaði hvölunum sem bezt í votum heimkynnum sínum. Því er líklegt, að sumt atferli þeirra kunni að koma okkur nokkuð spánskt fyrir sjónir og renna stoðum undir þær fullyrðingar, að hvalir hagi sér heimskulega og beri ekki nein vitni um, að þeir séu greindir, og er þá átt við þann skilning, sem maðurinn leggur í það hugtak. Höfrungurinn frægi við strendur Nýja-Sjálands varð sagður stór, annars var hann ekki greindur til tegundar. Sérfræðingar hafa sumir hverjir gizkað á, að þetta hefði getað verið háhyrningur, þótt ekki sé unnt að fullyrða neitt um það. Sumir fræðimenn vilja halda því fram, að háhyrningar og fleiri tegundir höfrunga hafi greind, sem jaðri við greind mannsins. Þeir byggja fullyrðingu sína m.a. á ýmsu því, sem þeir hafa komizt að raun um við tilraunir sínar og athuganir. Má nefna yfirborð heilans, sem ræður miklu, þegar um greind er fjallað, sem er ekki ólíkt því og gerðist meðal manna. Þess skal getið, að uppbygging heilans er mjög mismunandi meðal hinna rúmlega 90 tegunda, sem til eru.
Hvalveiðar hafa verið mjög til umræðu hér á landi undanfarin ár. Afurðir hvala eru miklar náttúruauðlindir, vieta fólki atvinnu og skapa verðmæti. Veiðar þessar hafa allt frá því, að þær hófust fyrir mörgum öldum, verið mikil þolraun fyrir þá hvalstofna, sem fyrir barðinu urðu á veiðum manna. Skal ekki fjölyrt meira um það, heldur bent á aðra náttúruauðlind af sama toga spunna. Þar er átt við hina lifandi hvali, frjálsa og óraga við menn og skepnur. Heimildir eru fyrir því, að stórhveli hafi komið á vissum tíma árs að ströndum landsins og inn á djúpa firði og dvaldist þar nokkurn tíma. Má m.a. nefna steypireyðarkýr, sem komu reglulega inn í Tálknafjörð með kálfa sína á tilteknum árstíma, en hættu því, þegar veiðar hófust. Þá eru sagnir um stórhveli, sem syntu árlega inn Mjóafjörð áður en hvalveiðar hófust þar á seinni hluta síðustu aldar. Hnúfubakar voru algengir skammt fyrir utan mynni Faxaflóa áður en þeim tók að fækka vegna ofveiða. Hví heitir Hvalfjörður þessu nafni? Þannig mætti lengi spyrja.
Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir hafa komið upp friðuðum svæðum, þar sem vitað er, að hvalir halda sig um nokkurn tíma á árinu nálægt landi. Þessi svæði eru orðin mjög eftirsótt af ferðamönnum og skipta þeir orðið hundruðum þúsunda, sem sækjast eftir því að horfa á þessi óviðjafnanlegu dýr í náttúrulegum heimkynnum sínum og það lifandi en ekki liggjandi dauð á skurðarplani.
Mætti ekki hugsa sér, að hvalir hér við land tækju upp sína fyrri hætti, ef gert yrði verulegt hlé á hvalveiðum hér við land? Ef svo færi, er ekki fráleitt að hugsa sér, að þessi staðreynd yrði mikið aðdráttarafl ferðamanna, bæði innlendra og erlendra. Sennilega yrðu gjaldeyristekjur umtalsverðar af skoðunarferðum á hvalaslóðir. Það er áreiðanlega von margra, að svo megi verða. Eftir því, sem framfarir allar og tækni verða meiri og fullkomnari, fjarlægist maðurinn meira hið upprunalega umhverfi sitt og lífverur þær, sem búa með okkur á þessari jörð. Fyrir 20 árum eða svo var varla farið svo um utanverðar Breiðafjörð, að hrefnur sæjust ekki. Sumer þeirra virtust forvitnar og syntu rólega að bátnum af einskærri forvitni. Fáum líður slík sjón úr minni. Væri ekki nær að gera út báta þá, sem notaðir eru til að veiða hrefnuna til flutnings á forvitnu og áhugasömu fólki til að skoða og undrast yfir einu stórbrotnasta sköpunarverki jarðar.
Við strendur landsins hafa með fullri vissu sézt 10 tegundir tannhvala en miklar líkur eru á því að 3-4 tegundir til viðbótar séu við landið. Mjög forvitnilegt væri að komast að raun um hvaða tegundir um er að ræða. Nokkuð öruggt er talið að ein þeirra sjáist hér reglulega, þó að hún hafi ekki sézt með fullri vissu. Af tegundum skíðishvala hafa 7 þeirra sézt hér við land. Tvær þeirra hafa ekki sézt hér í áratugi, enda eru þær á mörkum aldauða.
Til fyllri upplýsinga skal bent á grein Árna Einarssonar, líffræðings, í 7. riti Landverndar um hvali hér við land. Þá skal bent á greinar Jóhanns Sigurjónssonar um rannsóknir hans, sem birzt hafa í tímaritinu Ægi og ritum Hafrannsóknarstofnunar.
Höfundurinn lézt 2001. Hann var forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs og leiðsögumaður.