Útselur er nokkuð stærri end landselur, allt að 3 m að lengd og 3-400 kg. Hann er gildastur um bógana flatvaxinn. Hann hefur stórt og frammjótt höfuð og liturinn er breytilegur eftir aldri og kyni. Algengasti liturinn er grár, dökkir dílar á baki og hliðum og einlitur kviður, höfuð og hreifar. Hann heldur sig við nyrztu strendur Norður-Atlatnshafs og fer sjaldan norður í Íshaf. Hann heldur sig aðallega við suður- og vesturströnd landsins og finnst frá Eystrahorni og Hvalbak og allt norður á Skaga. Hann er mest áberandi á skerjum og útkjálkum fyrir opnu hafi og á fáförnum stöðum á söndum suðurstrandarinnar. Mest er af honum í Breiðafirði, í Hvalseyjum við Mýrar , við Vestfirði, Strandir og Skaga.
Útselurinn virðist vera fjölkvænisdýr utan Íslands. Samkvæmt erlendum rannsóknum safnast einungis kynþroska dýr saman í látrum, sem brimlarnir verja með kjafti og klóm. Brimlar, sem hafa ekki helgað sér látur, halda sig í fjarlægð. Kæpingin hefst á haustin og nær yfir tímabilið frá oktober til febrúar. Venjulega fæðir hver urta aðeins einn kóp og mökun hefst að loknu uppeldi kópanna, sem fá móðurmjólkina á 6 klst. fresti. Brimlarnir eru ekki síður vakandi yfir urtubúum sínum á mökunartímanum og verja þær og látrin með sama krafti. Hver brimill gagnast allt að 20 urtum. Fæðingarfeldur kópanna þolir ekki bleytu, þannig að þeir halda sig á þurru landi þar til háraskipti hafa orðið. Þroskatöf fósturs útselsins er 102 dagar. Selirnir léttast talsvert um kæpingar- og mökunartímann vegna þess að þeir nærast ekki á meðan. Háraskipti fullorðinna sela verða 2-3 mánuðum eftir mökunartímann og urturnar fella hár á undan brimlunum.