Sauðaneskirkja er í Þórshafnarprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi. Sauðanes er bær, kirkjustaður og var prestssetur á Langanesi, sjö km norðan Þórshafnar. Sauðanes var lengi talið eitt þriggja beztu brauða landsins. Þar voru katólskar kirkjur helgaðar Guði og Ólafi helga Noregskonungi. Útkirkja var á Svalbarði.
Timburkirkja á hlöðnum steingrunni, sem nú stendur, var byggð 1889. Í henni er forn vængjatafla með ártalinu 1742. Aftan á hliðarvængjum hennar stendur: „Offeret kirkan af Hans Mülle Luia.“ Prédikunarstóllinn stendur á útskornum og gildum tréfæti. Á hliðum hans eru fjórar stórar postulamyndir. Séra Árni Skaftason (1693-1770), sem sat Sauðanes frá 1717 til dauðadags, gaf kirkjunni stólinn.
Ríkharður Jónsson gerði skírnarsáinn í tilefni 70 ára afmælis séra Þórðar Oddgeirssonar (1883-1955), sem þjónaði Sauðanesi 1918-1955. Munnmæli herma, að kirkja hafi eitt sinn verið byggð úr gjafaviði frá bóndanum á Eiði á Langanesi. Hann hafði hrakið á hafís norður til Jan Mayen. Þar smíðaði hann fleka úr rekavið og sigldi aftur heim. Hann gaf kirkjunni flekann í guðsþakkarskyni og úr honum var kirkjan smíðuð. Þá stóð kirkjan nokkru neðar en núverandi kirkja.
Önnur saga segir frá því, að Vopnfirðingar hafi eitt sinn drepið prest í kirkjunni fyrir altari á sjálfan páskadaginn.