Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Miklagljúfur (Grand Canyon)

Miklagljúfur (Grand Canyon) eru í norðanverðu Arizonaríki. Það er einhver stórkostlegasta náttúrusmíð heims. Coloradoáin hefur sorfið þetta 349 km langa og allt að 1660m djúpa gljúfur á 7 milljón árum niður í skógi vaxna Kaibabhásléttuna. Gljúfrið teygist í boga frá mynni Pariaárinnar, nærri norðurmörkum Arizona, til Grand Wash Cliffs (Stóru-Þvottakletta) við mörk Nevada. Þjóðgarðurinn Miklagljúfur var stofnaður 1919 og er 4930 km². Hann var stækkaður til muna árið 1975, þannig að hann nær á milli vatnanna Lake Powell og Lake Mead. Malbikaður vegur liggur á börmunum á milli suður- og norðurhluta gljúfursins og um það liggja göngu- og reiðstígar. Ferðir á múldýrum og gúmmíbátum um það eru mjög vinsælar. Það er fjöldi flúða í Coloradoánni, sem er gaman að sigla um í gúmmíbátum. Fjöldi rústa bústaða klettabúa (pueblo) gefur til kynna búsetu á forsögulegum tímum. Nokkrir indíánaþjóðflokkar búa í nærliggjandi indíánabyggðum.

Enginn annar staður stendur Miklagljúfri á sporði, hvað snertir möguleika til að kynnast jarðsögunni á yfirborði jarðar. Sumar bergmyndanir þar eru allt að 2 milljarða ára gamlar (forkambríum).

1. Efst er Kaibab-kalksteinslagið (91m þykkt, úr fíngerðum salla; 250 milljón ára gamalt frá mið permium). Innhafið, sem myndaði Toroweap-lagið undir Kaibablaginu myndaðist fljótlega aftur til að mynda Kaibab-lagið. Í því eru ýmsir steingervingar ýmissa lindýra (mollusc), sælilja (crinoid) og skeldýra (brachiopod), sem gefa til kynna setmyndun í grunnum og hlýjum sjó.

2. Næstefst er Toroweap-lagið (61m þykkt, úr sand- og kalksteini með gipsinnskotum; 260 milljón ára, frá miðpermium). Toroweaplagið segir frá myndun og hörfun innhafs frá og til vesturs. Steingervingar lindýra, sælilja, skeldýra og kóralla einkenna þetta setlag.

3. Þriðja lagið er Coconinosandsteinslagið (15-91m þykkt, úr brúnum og ljósum sandi, sem varð til við sandöldumyndun í eyðimörk; 270 milljón ára, frá frumpermium). Þarna mun hafa verið gríðarstór eyðimörk, lík Sahara. Steinrunnin spor margs konar skriðdýra er þar að finna. Þrátt fyrir mikla leit, hafa engar steinrunnar leifar þessara dýra fundizt enn þá.

4. Fjórða lagið er Hermitleirlagið (91m þykkt, úr mjög fínkornóttu seti, sem veðrast auðveldlega; 280 milljón ára, frá frum-permium). Upprunalega var þetta lag talið með Supai-laginu. Levi Noble lýsti því yfir árið 1922, að það væri sérstakt, en hefði myndast í mýrlendi og lónum eins og Supailagið.

5. Supailagið (182-203m þykkt, úr mjög fínkornóttu, rauðu seti, nema efst, þar sem það er úr rauðbrúnum sandsteini; 300 milljón ára, frá mótum pennsylvanian og permian). Árið 1975 endurskilgreindi Eddie McKee frá Jarðfræðistofnun BNA þetta lag og sagði, að eftirfarandi setlög, sem voru áður skilgreind sérstaklega, væru hluti af þessari myndun: Watahomigi-, Manakacha-, Wescogame- og Esplanade-. Supailagið einkennist af innbyrðis lagskiptingu. Aursprungur og steingervingar plantna gefa til kynna, að það hafi myndazt í mýrlendi.

6. Sjötta lagið er Redwallkalksteinninn (122-198m þykkt, úr fínkornóttum, gráum sandsteini með óekta taumum úr kvarts eða kalsedón sums staðar; 330 milljón ára, frá frum – mið-missisippian). Mikið er um steingervinga sjávarplantna, skeldýra, hryggleysingja og fleiri tegunda, sem gefa til kynna myndun í grunnu og hlýju innhafi. Regnvatn, sem skolaðist niður hærra liggjandi Hermit- og Supai-lögin litaði Redwall-lagið.

7. Sjöunda lagið er Temple Buttekalksteinninn (30-305m þykkt, úr þunnu, rauðu og purpurarauðu dólómíti og fínkornóttu, gráu og þykku dólómíti; >370 milljón ára, frá devon). Temple Buttelagið byggist á ráslöguðum setlögum meðfram efri brún Muavkalkmyndunarinnar, einkum áberandi í Marmaragljúfri (Marble Canyon). Til vesturs verður Temple Butte-lagið að hengiflugi, sem er allt að 305m hát við Stóru-Þvottakletta(Grand Wash Cliffs). Vegna myndbreytingar þessa lags, úr setlagi í dólómít, er lítið um steingervinga. Steinrunnar tennur fiska virðast vera hið eina, sem eftir er.

8. Áttunda lagið er Muavkalksteinninn (46-244m þykkt, úr dílóttum, gráum sandsteini með grænum míkaleir; 530 milljón ára, frá mið-kambríum). Þessi setlög urðu til í grunnum sjó, sem vindar náðu að róta upp. Dólómítsetlög í og ofan á Muavlaginu gefa til kynna, að innhafið hafi hopað til vesturs og horfið um tíma.

9. Níunda lagið er Bright Angel Shale (61-137m þykkt, úr grænum leir en neðst er fínkornóttur sandsteinn ofan á Papeats-laginu fyrir neðan; 540 milljón ára, frum- miðkambríum). Í þessu leirlagi er mikið af steingerfðum hryggleysingjum (trilobite), örsmáum skeldýrum (brachiopod) og ormum. Þetta setlag verður fínkornaðra, er nær dregur næsta lagi fyrir ofan og breytist smám saman í kalkstein. Bright Angelleirinn settist til í kyrru vatni lengra frá ströndinni í sama hafi og næsta setlagasyrpa fyrir neðan, Tapeatssandsteinninn.

10. Tapeatssandsteinslagið (91-273m þykkt, úr miðlungs- og grófum sandkornum, sem eru frá því að vera ljósleit til rauðbrún. Þetta setlag varð til í ókyrrum sjó, þegar hafið streymdi eina ferðina enn þá frá vesturströndinni inn á sigsvæðið. Þarna er einnig að finna fornar sandöldur, sem mynduðust á strandlengju innhafsins áður en þær voru kaffærðar.

11. Grand Canyon Supergroup (4,6 km þykkt; setlög og hraunlög til skiptis; 1,2 milljarða – 800 milljóna ára; frá yngra forkambríumskeiði). Geysiþykk setlög og hraun þöktu Miklagljúfurssvæðið fyrir upphaf Paleozon-skeiðið. Þessi jarðlög voru allt frá mjúkum leir, harðari sandsteini og hrauni. Á þessu skeiði urðu til gríðarleg misgengi í flellingahreyfingum jarðskorpunnar og fjöll urðu til. Hliðrunin nam allt að 10-15°. Síðan veðruðust öll nema neðstu jarðlögin brott og á frumkambríum hlóðust upp lárétt setlög ofan á þessi. Við það skapaðist misræmi í lagskiptingunni, sem kallað er „ósamræmið mikla” (The Great Unconformity).

Dýralífið í gljúfrunum er fjölbreytt. Þar má m.a. finna margar tegundir íkorna, sléttuúlfa, refi, dádýr, stórhyrnt villisauðfé greifingja, gaupur, kanínur og pokarottur. Niðri á gljúfurbotnunum vaxa ýmsar tegundir víðis og baðmullarrunna, þar sem er nægilegt vatn. Á norðurbrúnum gljúfranna er fallegur skógur, þar sem jarðvegur er djúpur og rakur. Einnig vex talsvert af kaktus, þar sem lítið er um vatn og jarðvegur af skornum skammti.

Coronadoleiðangurinn er talinn hafa barið gljúfrin augum fyrstur árið 1540. Árið 1859 leiddi John Wesley Powell fyrsta leiðangurinn í gegnum þau. Frásögn hans af ferðinni er ein af hinum sígildu bandarísku ferðasögum. Árið 1870 var búið að gefa út ítalegar lýsingar af Stórugljúfrum.

Suðurhluti gljúfranna er opinn almenningi allt árið en norðurhlutinn frá miðjum maí til miðs oktober.

Efsti hluti gljúfranna er úr ljósgráum kalksteini. Þar fyrir neðan er rauður sandsteinn með hvítum rákum, dökkrautt og grátt kalk auk glanslausra, grænna setlaga. Innri gljúfrin (Inner Gorge; 460m djúp) eru V-laga og sorfin niður í mjög hörð lög af frumgrýti (gneiss) og granít. Meðalmagn jarðefna, sem áin ber með sér um gljúfrin er hálf milljón tonna. Þess vegna er hún gulbrún á litinn.

Vegna mikils hæðarmunar í gljúfrunum er þar að finna fimm af sjö loftslagstegundum jarðarinnar. Í 600-1200m hæð í innri hluta gljúfranna þrífast kaktusar og aðara eyðimerkurplöntur. Í 1200-2100m hæð, allt að suðurbrúnum gljúfranna, ríkir þurrt og temprað loftslag með eini, eik og fjallamahóní. Á Coconinohásléttunni við suðurjaðarinn í tempruðu loftslagi vex ponderosafura. Kanadíska loftslagið teygist inn á Kaibabhásléttuna við norðanverð gljúfrin (2440-2740m hæð) og þar vaxa aspir og margar tegundir barrtrjáa (doglas- og ponderosafura).

Úrkoman í innri hluta gljúfranna er 250mm á ári, 400mm við suðurjaðarinn og 635 við norðurjaðarinn. Í júlí og ágúst má búast við þrumuveðri með skýfalli hér um bil á hverjum degi. Á veturna snjóar talsvert.

Grand Canyon Village (2099m) er á suðurbrún gljúfranna. Þar hefjast skoðunarferðir með rútum eftir 53 km löngum útsýnisvegi (40 km í austurátt og 13 km til vesturs).

Austurbrúnarleiðin (East Rim Drive/Desert View Drive) liggur að gestamiðstöðinni (safn og fyrirlestrar) og síðan að *Yavapai Point (safn, fyrirlestrar, sjónaukar, rútuendastöð). Skammt frá bergbrúninni eru útsýnisstaðirnir Mather Point, Yaki Point, *Grandview Point, Moran Point og Zuñi Point. Þaðan er hægt að komast 37 km leið að Tusayan-rústunum, þar sem indíánarnir byggðu sér bústaði árið 1185 (pueblo; safn).

Fjær, lengra til vinstri, eru útsýnisstaðirnir Lipan Point og Navajo Point (2271m), þar sem er endurbyggður varðturn indíána (líka birgðaturn). Til norðurs og norðausturs er gott *útsýni yfir „litríku eyðimörkina” (Painted Desert) til hliðardals Litlu Coloradoárinnar og innri gljúfranna.

Vesturbrúnaleiðin (lokuð á sumrin fyrir umferð einkabíla; ókeypis rútuferðir) liggur frá Grand Canyon Village til endapunktsins Maricopa Point, sem skagar langt inni í gljúfrin. Síðan liggur leiðin meðfram gljúfrabrúninni fram hjá Orphan-úraníumnámunum (til hægri; enn þá í notkun), Hopi-eftirlitsturninum (til vinstri; eftirlit með skógareldum) og Powellminnismerkinu (til vinstri). Síðan koma útsýnisstaðirnir Hopi Point, Nohave Point, Abyss Point og Pima Point. Vegurinn endar við *Hermits Rest (2039m; indíánahús) með fallegu útsýni yfir gljúfrin.

Myndasafn

Í grennd

Þjóðgarðar Íslands
Þingvellir (1928) er sögufrægasti staður landsins og er í hjarta Þingvallasveitar. Þar ber Almannagjá  hæst og hinn forna þingstað við Öxará. Þingvall…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )